Thursday, January 19, 2006

Upplýsingatækni (2. Innlegg)

Árið 2001 gerði Þuríður Jóna Jóhannsdóttir Meistaraprófsverkefni í uppeldis- og kennslufræði við Kennaraháskóla Íslands. Verkefnið hlaut nafnið “Veiðum menntun í netið – Um námskenningar og nýja miðla og áhrif þeirra á nám og kennslu.” Eins og gefur að skilja fjallar verkefnið að mestu um aukna upplýsingatækni í skólum. Ég lagði ekki í að lesa allt verkefnið að þessu sinni en las nokkra áhugaverða kafla. Það er til dæmis mjög áhugaverður kafli um upplýsingatækni í skólum út frá hugsmíðahyggju (constructivism), sem gaman var að lesa í samhengi við skólaheimsókn sem nokkrir nemenda fóru í til Sjálandsskóla. En Sjálandsskóli vinnur einmitt mikið út frá hugsmíðahyggju. Það er hægt að kíkja á örlitla útskýringu á hugsmíðahyggju á fínu, nýju heimasíðunni minni.
Ég ætla að mestu leyti að beina sjónum að lokaorðum Þuríðar. Kafla 6, sem heitir “Að verða læs og skrifandi á nýjan miðil – verkefni kennara og nemenda á nýrri öld.”

2. Hluti

Þuríður lýsir á áhugaverðan hátt að Internetið er vissulega nýr og byltingarkenndur miðill. Hún talar um að þessi miðill sé til þess fallinn að vinna með hann, en það sé í raun eðlileg þróun að erfitt sé að komast af stað með að nota Internetið sem öflugan þátt í kennslu. Vísindasamfélagið er nefnilega of gjarnt á að halda í viðteknar venjur og á erfitt með að sleppa sér inn á nýjar brautir. Þetta má því miður heimfæra upp á ansi marga kennara. Það er ekkert skrítið að það sé erfitt að fá kennara sem kannski er búinn að kenna í 10-20 ár til að tileinka sér nýjar kennsluaðferðir. Sérstaklega þegar viðkomandi kennari er búinn að viða að sér kennsluefni og aðferðum gegnum árin, sem að hann er sáttur við og leiðir til þess að viðkomandi þarf lítið að undirbúa sig fyrir hverja kennslustund. Hann einfaldlega kennir eins og hann hefur alltaf kennt. Ég var engu skárri árið sem ég kenndi sem leiðbeinandi í 6. bekk Síðuskóla. Ég notaði mér þá reynslu sem ég hafði úr skóla, með öðrum orðum hermdi eftir þeim kennurum sem ég höfðu kennt mér. Hermdi eftir þeirra kennsluaðferðum. Ég notaði upplýsingatækni afskaplega lítið, nema rétt í lok skólaárs, þegar maður var aðeins byrjaður að þora að prófa eitthvað nýtt.

3. Hluti

Þuríður talar um að nútímasamfélag bjóði upp á auðvelt aðgengi að upplýsingum. Fyrir vikið er það hlutverk kennarans að reyna að skapa þekkingu úr þessum upplýsingum. Hún segir ennfremur að grundvöllurinn sé að fá nemendur til að nýta sér sköpunargáfuna, því að sú gáfa sé til mikilla bóta í því upplýsingasamfélagi sem við búum í. Eftir stendur vissulega sú spurning hvort að það sé ekki einmitt viss áhætta á að Internetið dragi úr sköpunargáfu. Ég held allavega að bæði kennarar og foreldrar verði að huga vel að hvernig netið er notað og það þarf að passa sig að það endi ekki á því að netið verði eingöngu notað, til upplýsingaöflunar. Svoleiðis þróun gæti endað með að bækur hættu algjörlega að seljast og nemendur einfaldlega hættu að lesa skáldsögur sér til dægrastyttingar og fróðleiks. Ég tel einmitt enn ríkari áherslu nú í dag að kynna nemendur fyrir heimi bókanna, svo ekki endi með að komandi kynslóðir geti ekki lesið nema stutta texta á tölvuskjánum sínum.

4. Hluti

Þuríður vitnar í Donlevy og Donlevy og segir að það sé mikilvægt í upplýsingatækni að kenna nemendum færni í að skanna, færni í að tileinka sér mikið magn upplýsinga og kunna að vinna úr því og færni í samskiptum að því leyti að láta frá sér verkefni sem aðrir skilja. Til að þetta gangi þarf því að leggja áherslu, eins og áður, á lestur, hugsun og ritun. Undirbúningur og kennsla fyrir upplýsingatækni þarf því ekki að vera mjög stórt stökk fyrir góðan kennara.

Þuríður talar um að hlutverk kennara sé að skapa skilyrði til náms. Það er því á þeirra ábyrgð að nemandinn hafi þau skilyrði að geta nýtt sér Internetið til upplýsingaöflunar og sjá til þess að aðstæður séu bæði gefandi og hvetjandi.

Ég hef mikinn hug á að nýta mér Internetið við kennslu í framtíðinni. En ég er líka á því að það þurfi að lesa sér vel til um hvernig best er að nota netið, svo að það geri meira gagn fyrir nemendur en óskunda. Það er nefnilega ekki endilega víst að það að nemandi geti unnið sjálfstætt í tölvu þýði það sama og að nemandinn sé sjálfstæður á öðrum sviðum.

Sunday, January 08, 2006

Hæ Hæ og gleðilegt ár!

Eitthvað vildi blogger ekki samþykkja þessa langloku mína, og svo fór að lokum að ég þurfti að skipta henni í 5 hluta! Þetta blogg er inni á bloggsvæði unnustu minnar og þess vegna kemur alltaf í lokin "posted by Siggalára" veit nokkur hvernig hægt er að breyta því á þessu eina bloggi? Er það kannski ekki hægt?

Upplýsingatækni í grunnskólum

Haustið 2003 fóru nemendur í fjarnámi við KHÍ í vettvangsferðir í grunnskóla til að rannsaka hvernig upplýsinga- og samskiptatækni væri notuð í kennslustundum og það var hluti af námskeiðinu “Aðferðafræði rannsókna”. Kennarar þessa námskeiðs, Þuríður Jóhannsdóttir og Kristín Guðmundsdóttir, rituðu síðan grein sem birtist í Netlu um þessa rannsókn og niðurstöður hennar. Greinin nefnist: Væntingar og veruleiki - Notkun upplýsinga- og samskiptatækni í námi og kennslu í nokkrum grunnskólum á Íslandi haustið 2003.

Í þessari litlu hugleiðingu minni er ekki ætlunin að kafa djúpt í innihald þessarar greinar, heldur minnast á það sem mér þótti áhugaverðast í henni og reyna að draga persónulegar ályktanir af hinu og þessu.

2. hluti

Rannsóknir í Englandi, Danmörku og Svíþjóð hafa ekki sýnt að koma upplýsingatækninnar hafi breytt kennsluháttum í einhverjum mæli. Hér á landi var gerð rannsókn 1998 þar sem meðal annars kom fram að of fáar tölvur gerð það að verkum að upplýsingatæknin væri ekki mikið notuð og auk þess hefðu kennarar ekki næga færni til að geta nýtt sér tölvutæknina í kennslu. Því miður virðist þetta ennþá vera meginástæða þess að upplýsingatæknin er ekki notuð jafn mikið og jafn vel og unnt væri. Þetta er eflaust af einfaldri ástæðu. Það virðist bara deginum ljósara að skólar eru ekki að fá nægt fjármagn. Það er líka ekkert gamanmál að fjármagna tölvukaup fyrir skóla þegar tölvurnar eru orðnar úreltar eftir 2-3 ár. Í sambandi við færni kennara, þá er vel hugsanlegt að kennarar yfir þrítugt hræðist að nota þessa tækni, þar sem kunnátta þeirra er ekki nægileg og í mörgum tilvikum er kunnátta nemandans jafnvel meiri. Ég er sjálfur 33 ára og þurfti í raun ekki að notast að ráði við tölvu fyrr en í háskóla (og þá að langmestu leyti við ritvinnslu).

3. hluti

Nú í dag, státa ég að ADSL og vinn að mestu leyti gegnum netið, en nota þó einungis þau forrit sem ég nauðsynlega þarf að nota. (Er til dæmis að vinna í fyrsta skipti að heimasíðu, vegna verkefnis í HA, og þetta er fyrsta bloggsíðan mín) Þetta held ég þó að hljóti að batna með tíð og tíma. Sérstaklega þegar einstaklingsmiðað nám gerir betur vart við sig. Einstaklingsmiðað nám gerir miklar kröfur á kennarann. En þær eru um leið allt aðrar en áður, mannlegi þátturinn er nú mun mikilvægari en sá þáttur að kunna sína sérfræðigrein upp á tíu fingur. Kennarinn þarf ekki að hafa áhyggjur af fáfræði sinni og getur í raun lært með nemendunum í stað þess að mata nemendur á staðreyndum. Tölvur eru nefnilega augljóslega gott kennslutæki í einstaklingsmiðuðu námi. Það getur ekki verið tilviljun hvað tölvur eru notaðar mikið í kennslu nemenda með sérþarfir. Fyrir suma nemendur er tölvan bara greinilega besta kennslutækið. Er þá ekki sjálfsagt að nota það?

4. hluti

En nú er ég kannski kominn dálítið út fyrir efni greinarinnar, en annað sem þessu tengist vissulega er sú niðurstaða höfundanna að í um helming tilvikanna sem tölva var notuð á miðstigi, stýrði kennarinn kennslunni þannig að allir nemendur áttu að fylgjast að. Til hvers þá að nota tölvu yfirleitt? Hví ekki að notast bara við gömlu aðferðirnar? Ég á 12 ára gamlan, ofvirkan frænda sem er betri en flestir sem ég þekki á tölvu. Ég tel fullvíst að þessi kennsluaðferð hefði ekki hentað honum. Þvi miður tel ég að kennarar séu ekki endilega að nota tölvur rétt í kennslu. Ég er ekki að segja að ég viti endilega hvernig sé best að nota þær, en allt of oft er kennarinn eingöngu að hugsa um að brjóta upp kennsluna á einhvern hátt, hafa hana sem fjölbreytilegasta. En að láta alla hafa sama eyðufyllingarverkefni og venjulega, bara í tölvunni, getur varla talist mikil tilbreyting, eða hvað?

Saturday, January 07, 2006

5. hluti

Höfundar tala auk þess um aukaverkanir þess að nota internetið í kennslu. Eitt af því fyrsta sem nemendur læra er nefnilega að gera ‘copy’ og ‘paste’ Og það virðist mjög algengt að ef nemendur eigi að afla sér heimilda af netinu, komi heilu kaflarnir oft á tíðum beint upp af netinu. Við sem höfum kennt grunnskólabörnum vitum að þegar nemendur vinna veggspöld og ritgerðir skrifa þau oft á tíðum hluta beint upp úr bókinni, en einhverra hluta vegna finnst mér það mun skárra en að smella á ‘copy’ og ‘paste’. Er það rangt hjá mér?
Auk þess er talað um mikinn kynjamun hvað virkni varðar. Stelpur séu yfirleitt mjög áhugasamar og vinni samviskusamlega á meðan strákarnir eina til tvær línur en fari síðan á leikjasíðu eða MSN, freystingarnar á netinu virðast vera fleiri fyrir stráka en stelpur. Þetta virðist kalla á breytta agstjórnun.

Niðurstöður þessarar rannsóknar virðist sýna að þróun upplýsingar- og samskiptatækni í grunnskólum hafi ekki verið ýkja mikil síðan 1998. Það virðist ekki skorta áhugann hjá kennurum að nýta sér upplýsingatæknina, en eflaust þarf að kynna sér betur hvernig er best að nýta sér hana svo að hún komi öllum að gagni.